Álit dómaranefndar Evrópuráðsins um mikilvægi velferðar dómara fyrir skilvirkni dómskerfisins 

Álit dómaranefndar Evrópuráðsins um mikilvægi velferðar dómara fyrir skilvirkni dómskerfisins

 Ráðgjafarnefnd evrópskra dómara (CCJE) samþykkti á fundi sínum Strasbourg 14. nóvember 2025 álit nr. 28(2025) um mikilvægi velferðar dómara fyrir skilvirkni dómskerfisins (Opinion on the importance of judicial well-being for the delivery of justice). Álitið má sjá hér.

Álitið fjallar um tengsl þess að gætt sé að velferð dómara og  þess að uppfylla kröfur um að dómstólar séu skilvirkir, sjálfstæðir og og óhlutdrægir svo sem fram kemur í 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Á undanförnum árum hefur dómskerfið staðið frammi fyrir ýmsum ógnum við framangreind markmið. Eru þar meðal annars nefnd  vaxandi lýðræðislegur óstöðugleiki og skortur á virðingu fyrir sjálfstæði dómstóla af hálfu stjórnvalda, þings, fjölmiðla og samfélagsmiðla.

Í álitinu er því fjallað um hvernig hægt er að vernda og efla velferð dómara til að auka gæði og skilvirkni starfsins og styðja þannig jafnframt við sjálfstæði og óhlutdrægni dómskerfisins sem lykilþætti í lýðræðislegu skipulagi og réttarríki. Þar er ítarlega fjallað um áskoranir sem dómarar mæta í tengslum við störf sín sem áhrif hafa á velferð þeirra og gerðar eru tillögur til aðildarríkja Evrópuráðsins hvernig megi bregðast við þeim.

Ráðgjafarnefnd evrópskra dómara er skipuð dómurum frá  46 ríkjum Evrópuráðsins  og eru þeir að jafnaði tilnefndir af dómarafélögum viðkomandi ríkja. Hlutverk nefndarinnar er að vera stofnunum Evrópuráðsins til ráðgjafar um hvers kyns álitaefni sem tengjast sjálfstæði og hlutleysi dómstóla og stöðu dómara í aðildarríkjunum. Lista yfir álit nefndarinnar frá síðustu árum má sjá hér.

Next
Next

Fundur formanna norrænna dómarafélaga haldinn í Helsinki